Spurt og Svarað

Hvað kostar að fara sem sjálfboðaliði?

Upphæðin ræðst að stórum hluta af því hversu hagstæð flug bjóðast í kring um fyrirhuguðum dvalartíma ásamt þeim húsnæðisúrræðum sem standa til boða. 

Akkeri sendir ekki sjálfboðaliða á sínum vegum sem stendur né mun félagið standa straum af ferðakostnaði þeirra sem hyggjast fara sem sjálfboðaliðar til að sinna fólki á flótta. Við getum hinsvegar verið innan handar við ráðgjöf til þeirra sem þess óska um hvernig sé hagkvæmast að komast á áfangastað.

Hvar get ég gist? Er það ókeypis? Hvað kostar?

Sjálfboðaliðar eru ávallt á eigin vegum og sjá sjálfir um að finna sér gistingu. Yfir vetrartímann, þegar framboð gistirýma er meira, ætti að vera hægur leikur að finna gistingu á viðráðanlegu verði.

Hvernig hæfni nýtist best? Hvernig get ég undirbúið mig?

Sértæk þekking og reynsla sem nýtist á vettvangi er að sjálfsögðu mikils metin en ekki nauðsynleg. Á Grikklandi gilda nú víða strangari reglur fyrir sjálfboðaliða. Heilbrigðisstarfsfólk má ekki sinna slíkum störfum nema með vottun frá gríska heilbrigðisráðuneytinu. Flest samtök sem sinna heilbrigðisþjónustu á svæðinu geta leiðbeint fólki í því ferli.
Hafir þú vilja og tök á því að fara þá býður Akkeri verðandi sjálfboðaliðum upp á undirbúningsfund/námskeið þar sem farið verður yfir aðstæður og helstu verkefni sem viðkomandi gætu átt von á að sinna. Við getum öll gert eitthvað!

Hvaða verkefnum gæti ég átt von á að sinna?

Starf sjálfboðaliðans er ótrúlega fjölþætt og síbreytilegt eftir aðstæðum hverju sinni. Það getur verið allt frá því að tína rusl eða flokka föt í að skipta á börnum og taka á móti drekkfullum bátum af fólki. Reynt er að skipta verkum á milli sjálfboðaliða eftir hæfni og/eða dvalartíma en hér er mikilvægt að muna að öll störfin, stór sem smá, skipta máli.

Hvað þarf að vera lengi?

Öllum er frjálst að koma og fara eins og þeir vilja en til þess að kraftar fólks nýtist sem best er ákjósanlegast að dvelja í tvær vikur eða lengur.

Við hvern er hægt að hafa samband ef mig langar/áður en ég fer?

Sendu okkur tölvupóst á akkeri@akkeri.is og/eða fylgstu með Akkeri á facebook eða akkeri.is þar sem við munum reglulega auglýsa sjálfboðaliðafundi/-námskeið.

Hvað á ég að taka með mér fyrir sjálfa/n mig?

Góð útivistarföt sem henta öllum aðstæðum og veðurskilyrðum og auðvelt er að athafna sig í. Þægileg föt sem þorna hratt og aukapör af skóm eru mikilvæg. Gott að hafa það í huga að þó það sé yfirleitt hlýtt yfir daginn þá getur orðið kalt á kvöldin.

Á ég að taka með mér hjálpargögn?

Best er að fylgjast með því hvað vantar hverju sinni en það getur breyst mjög hratt. Hafir þú tök á að taka eitthvað aukalega með þér sem verið er að kalla eftir er það frábært.

Hvaða stuðning veitir Akkeri Sjálfboðaliðum?

Akkeri býður verðandi sjálfboðaliðum að sækja undirbúningsfund/-námskeið áður en haldið er út ásamt því að svara spurningum og veita fræðslu. Allir fjármunir Akkeris fara í beina aðstoða við fólk á flótta og sjálfboðaliðar sjá því sjálfir um öll fjárhagsleg útgjöld er viðkoma dvöl þeirra.

Skiptir máli hvenær ég kem?

Neyðin er núna. En þar sem að aðstæður geta breyst mjög hratt og þær er aldrei hægt að meta langt fram í tímann, er mikilvægt að fylgjast með því hvort að enn vanti sjálfboðaliða til starfa.

Eru aðrir Íslendingar á svæðinu?

Akkeri mun reyna að koma öðrum sjálfboðaliðum á leið út í samband við þá sem við vitum af á svæðinu hverju sinni sé þess óskað.

Tungumál – get ég lært eitthvað til að undirbúa mig?

Tungumálakunnátta í arabísku, farsí og grísku er mjög hjálpleg en ekki nauðsynleg. Flestir sjálfboðaliðar og flóttafólk talar ensku.


- MIG LANGAR TIL LESBOSHvar get ég gist? Er það ókeypis? Hvað kostar?

Best er að leita sér að gistingu í annað hvort Petra eða Molyvos ef sinna á sjálfboðaliðastörfum á Lesbos. Verði Petra fyrir valinu er nauðsynlegt að hafa yfirráð yfir bíl. Hótelherbergi gætu verið besti kosturinn fyrir þá sem hyggjast dvelja í skemmri tíma eða á meðan fundin eru önnur hagstæðari úrræði.

Hvar er best að vera á Lesbos?

Allt starf Starfish foundation fer fram í og í kringum Molyvos. Hentugast er að finna sér samastað í Molyvos eða Petra. Þó geta sjálfboðaliðar átt von á því, hafi þeir bíl til umráða, að vera sendir í verkefni annarsstaðar í nágrenninu.

Hvernig tilkynni ég mig þegar ég mæti til Lesbos? Læt ég vita áður en ég kem?

Við höfnina í Molyvos er veitingastaður sem heitir Captain’s Table. Þar eru höfuðstöðvar Starfish samtakanna (sjá “Starfish Foundation – Help for refugees in Molyvos” á facebook) og þar er hægt að tilkynna sig þegar komið er á svæðið. Auk þess er möguleiki að senda tölvupóst á molyvosrefugees@gmail.com og láta vita af komu sinni. Þá skal setja “volenteer” í subject og taka fram þá styrkleika, þekkingu og reynslu þú hefur sem getur nýst.

Ætti ég að senda föt eða annað til Lesbos? Hvernig? Hvar get ég fylgst með breytingum á því hvað vantar?

Aðstæður á Lesbos geta breyst mjög hratt og það gera þarfir fyrir aðbúnað og aðföng að sama skapi. Reglulega berast listar frá hjálparsamtökum yfir það sem vantar við móttöku og aðstoð við flóttafólk á eynni og Akkeri mun kappkosta að vekja athygli á hverju verið er að kalla eftir hverju sinni.

- MIG LANGAR AÐ HJÁLPA EN KEMST EKKI SEM SJÁLFBOÐALIÐI


Hvaða stuðningur nýtist best?

Allur stuðningur er mikilvægur, bæði stór og smár. Fjárframlög sem berast til Akkeris renna óskipt til hjálparstarfs í þágu fólks á flótta þar sem þörfin er mest hverju sinni. Áhersla er lögð á að kaupa vörur og þjónustu í heimabyggð, sé þess kostur til að styrkja innviði á viðkomandi svæði.
Sértu aflögufær um fatnað eða búnað sem gæti nýst á eynni ráðleggjum við þér að fylgjast vel með á heimasíðu Akkeris en þar munum við kappkosta að vekja athygli á því hverju er verið að kalla eftir hverju sinni ásamt því að benda á safnanir sem eru í gangi og hægt er að leggja lið. Á vegum Akkeris eru ýmis verkefni í farvatninu og við höfum alltaf þörf fyrir gott fólk sem er tilbúið að hjálpa. Sendu okkur línu á akkeri@akkeri.is með stuttri útlistun á því sem þú gerir vel og við bætum þér á verkefna-póstlistann okkar. Fólk á póstlistanum fær send yfirlit yfir verkefni sem eru framundan og getur tekið þátt í að gera þau að veruleika. Við getum öll gert eitthvað!

Hvert legg ég inn fjárframlag?

Akkeri hefur opnað styrktarreikning sem hægt er að leggja inn á upphæð að eigin vali. Fjármunum verður varið til að styrkja hjálparstarf í þágu fólks á flótta þar sem neyðin er mest og áhersla lögð á að kaupa vörur og þjónustu í heimabyggð, sé þess kostur. Reikningsnúmer: 0133-26-004211 Kennitala: 421115-0790 Við munum reglulega birta upplýsingar á heimasíðu Akkeris um í hvað fjármunirnir hafa verið nýttir.

Í hvað er peningaframlag frá mér sett?

Fjármunum verður varið í það sem er mest þörf fyrir hverju sinni. Aðstæður geta breyst mjög hratt og það gera þarfir fyrir aðbúnað og aðföng að sama skapi. Fjárframlög til Akkeris renna óskipt til hjálparstarfs í þágu fólks á flótta og áhersla lögð á að kaupa vörur og þjónustu í heimabyggð, sé þess kostur.

Ætti ég að standa að söfnun fyrir fólk á flótta? Ætti ég að senda föt eða annað?

Akkeri fagnar öllu frumkvæði að söfnunum og mun vera skipuleggjendum innan handar, sé þess óskað. Við hvetjum alla sem hafa í hyggju að setja af stað slíkar safnanir til að vera í sambandi við Akkeri, svo hægt sé að sameina krafta fólks og einnig vegna upplýsinga um flokkun og pökkun á fatnaði. Það er mikilvægt að flokka og pakka rétt, enda slíkt mikil vinna sem við viljum að sjálfsögðu hlífa sjálfboðaliðum ytra við. Rétt flokkun og pökkun gerir starf þeirra einfaldara og sparar mörg handtök.