Við erum vöknuð

„Hatrið má ekki sigra,“ skrifar Þórunn Ólafsdóttir formaður Akkeris. Eins og Þórunn minnir á þá er hatrið sem við fordæmum í dag ekki eitthvað sem spratt upp á einu kvöldi í París heldur viðvarandi ástand um allan heim. Mun minni athygli vöktu t.d. sjálfsmorðsárásirnar í höfuðborg Líbanon í fyrradag þar sem hatrið hirti líf 44 óbreyttra einstaklinga. Tala látinna í Sýrlandi rís dag frá degi og hleypur á hundruðum þúsunda en það er ekki sú tala sem við ræðum sem „vandann“ heldur talan yfir þá sem tekst að flýja.
París er barnið á ströndinni, voðaverk sem vekur okkur af því að það á sér stað í því sem við teljum til nærumhverfis okkar. En heimurinn er nærumhverfi okkar, stríðið er hér og það er okkar að standa vörð um hvert annað.
„Ef við ætlum að mæta hatrinu með illsku, fordómum og virðingarleysi fyrir hvert öðru, þá vinnur hatrið. Svo einfalt er það. Þess í stað skulum við upphefja það sem getur unnið gegn hatrinu. Kærleika, mannúð og virðingu hvert fyrir öðru.“
Akkeri hvetur alla til að sýna kærleikann í verki og leggja sitt af mörkum til flóttamannaðstoðar, til fórnarlamba sömu afla og réðust á París í gær. Við erum vöknuð, komum nú kærleikanum í verk! Grein Þórunnar: http://www.visir.is/hatrid-ma-ekki-sigra/article/2015151119272