Ahlan wa sahlan!

Að undanförnu hefur sífellt fleira fólk á Íslandi opnað augu sín, eyru og hjörtu fyrir aðstæðum flóttafólks. Það er ekkert betra en að upplifa þessa bylgju samkenndar og vonarglæta og trú á mannkynið hríslast æ oftar um líkamann. Að fylgjast með þjóðinni berjast af öllu afli fyrir albönsku fjölskyldunum sem nú hafa fengið vernd á Íslandi var magnað. Að fylgjast með sömu öflum slá verndarhring um Wael, Feryal, Jönu litlu og Jouli yljar á sama hátt – þó óvissan um framtíð þeirra sé ósanngjörn og erfið. En málalok litlu albönsku drengjanna og fjölskyldna þeirra veita von. Samtakamáttur og kærleikur geta svo sannarlega bjargað mannslífum. Í dag bjóðum við svo velkominn til landsins hóp fólks sem við höfum ákveðið að veita skjól fyrir stríði og átökum í heimalandinu. Af þeim orsökum erum við engar sérstakar hetjur, það er í senn sjálfsagt mál og skylda okkar. Mennska. En hvað þýðir það að bjóða fólk velkomið? Arabíska hefur að geyma svo mörg falleg orð og orðasambönd og merking þeirra er oft svo djúpstæð og einlæg að ég tek andköf. Ahlan wa sahlan þýðir í stuttu máli “velkomin” á arabískri tungu. Merkingin er þó mun dýpri og þýðir í raun “Kom sem fjölskylda okkar. Megi leið þín verða greið”. Mér skilst að orðasambandið sé ævafornt og hafi sérstaklega verið notað þegar förufólk bar að garði – í þeim tilgangi að láta því líða vel sem gestir á ókunnugum stað. Fólk ferðaðist langar leiðir í gegnum brennheita eyðimörkina, ýmist fótgangandi eða ríðandi, og öruggt skjól með mat og vináttu var öllum kærkomið – og gestgjafa afar mikilvægt að fólki liði vel á heimili sínu. Ahlan wa sahlan er tilraun til að láta fólki líða vel og óska þess að það finni öryggi, og vináttu þess sem heilsar. Þess óska ég okkur öllum. Ég óska þess að við finnum tengslin við hvert annað og að ferð okkar í gegnum þetta líf verði örugg og friðsæl, hvaðan sem við komum og hvert sem við erum að fara. Það er róandi fyrir sálartetrið að staldra við og rifja upp að við erum hérna saman – fyrir hvert annað. Ef við bara gerum leið hvers annars örlítið auðveldari, litríkari og öruggari, þá fer þetta allt saman vel. Ég lofa. Ef fólki á að líða vel í samfélaginu okkar, þá þarf það að upplifa sig velkomið – sama hvort það er fætt í Aleppo eða á Akureyri. Munum það. Vinátta, hlýja og áhugi er það sem þarf til að búa til fjölbreytt og kærleiksríkt samfélag. Þegar ég bjó í Mið-Austurlöndum var ég stundum spurð hverrar trúar ég væri. Ég svaraði ætíð hreinskilnislega, að ég tilheyrði engum trúarbrögðum. Ég minnist þess að svari mínu hafi verið mætt af forvitni og virðingu – rétt eins og ég mæti trú eða trúleysi annarra. Svo fékk ég líka innileg bros og klapp á öxlina, með orðunum “það er allt í lagi, Allah elskar þig samt!”. Það er falleg og merk viðurkenning að vera tekin undir verndarvæng afla sem þú trúir ekki á, en hafa sterka þýðingu fyrir þann sem mælir. Svo fullt af ást og virðingu fyrir fjölbreytileikanum. Það er mér að meinalausu að Allah elski mig, trúleysingjann. Því þó svo að ég trúi ekki á tilvist Allah né annarra guða – þá trúi ég á kærleikann. Og þessi orð voru það kærleiksríkasta sem viðkomandi datt í hug að segja á þessari stundu. Mætum hvert öðru af forvitni í stað fordóma og munum að hvorki hatrið né tortryggnin mun skapa okkur öruggan stað í tilverunni. Sýnum hvert öðru áhuga og sköpum eitthvað fallegt og nýtt. Ef við ætlum að bæta heiminn þá þurfum við nefnilega að byrja á okkur sjálfum. Svo getum við búið til öruggari og áhyggjulausri tilveru fyrir samferðafólk okkar, líka þá sem við enn eigum eftir að kynnast. Hrópum ahlan wa sahlan! með hjartanu og verum bara svolítið allskonar, skilningsrík og hlý.