Landamæri eru ekki náttúrulögmál

Frásögnin birtist upphaflega sem Facebookfærsla frá Þórunni Ólafsdóttur. Það var þungi yfir höfninni í Molivos þegar okkur bar að garði. Ungt par sat í horni veitingastaðarins, innvafið í teppi merkt flóttamannastofnun sameinuðu þjóðanna, og grét sárt. Kannski voru þau í skjokki. Þeim var augljóslega kalt. Èg var ekki viss, en það lá samt í loftinu. Þegar fólk neyðist til að leggja á úfið hafið á gúmmítuðru í frostgráðum og drunga, í tilraun til að bjarga lífi sínu, þá er ekki alltaf víst að allir skili sér. Í þetta sinn var það litli drengurinn þeirra sem hafið tók. Hvernig á svona lítill líkami svo sem að höndla allan þennan kulda? Ég var sjálf klædd í fimm lög af þurrum, hlýjum útivistarfatnaði og vel einangruð af náttúrunnar hendi en skalf af kulda, bæði á líkama og sál. Ég keyrði konur með lítil börn í veg fyrir rútuna. Sum barnanna voru veik, enda hefur fólk beðið allslaust í nístingskulda í Tyrklandi síðustu daga. Í framsætinu sat amma með litlu ömmustelpuna sína í fanginu og bað í hljóði. Hún var svo uppgefin og sorgmædd að hjarta mitt brast. Ég lagði höndina á hennar, hún kreisi hana og sagði mér án orða hvað hefði gerst. Hún knúsaði ömmustelpuna sína fastar. Þakklætið fyrir að fjölskyldan hennar væri heil á húfi var blandað óbærilegri sorg yfir örlögum litla drengsins. Þessi unga fjölskylda flúði stríð. Lagði í hættulega bátsferð því annað var ekki í boði – enda ekki okkar vandi að heima í Aleppo falli sprengjur sem gætu fellt fjölskylduna á hverri stundu. Eða hvað? Hungur, kuldi og dauði er það eina sem til er. Svo þau flúðu. Það voru ekki sprengjur eða hungursneyð sem hrifsuðu barnið þeirra frá þeim á þennan skelfilega hátt. Það var Evrópa. Enn og aftur tókst evrópskum ráðamönnum að ljúka því sem myrkraverkamönnum í Sýrlandi mistókst. Þessi litli drengur er bara einn af mörgum sem fallið hafa í valinn síðustu daga. Og enn dettur ráðamönnum ekki annað í hug en að gera hvað þeir geta til að hindra fólk í að flýja stríðið. Kannski er það þægilegra fyrir þá að fólk verði fyrir sprengju en að það drukkni eða frjósi í hel á evrópskri grundu. Síðan eru liðnir tveir dagar og þetta unga par er fast í huga mér. Hvað ætli verði um þau? Hafa þau styrk til að halda áfram án barnsins síns, sem þau þurftu að grafa í yfirfullum grafreit á ókunnugri evrópskri eyju? Ætli þau hafi þurft að sofa utandyra? Barnafólk gengur alls staðar fyrir þegar kemur að húsaskjóli og nú eru þau í flokknum “barnlaust par”. Fá þau hæli? Passar einhver upp á þau? Ég fæ örugglega aldrei svör við þessum spurningum, en þeirra þarf að spyrja. Það má aldrei verða þægilegt fyrir ráðamenn að líta undan. Það þarf þvert á móti að þvinga þá til að horfast í augu við allan þann hrylling, sorg og dauða sem þeir gætu komið í veg fyrir með alvöru aðgerðum. Ferja eða flugvél hefði bjargað lífi þessa litla drengs. Það er nefnilega ekki náttúrulögmál að fólk þurfi að flýja á þennan hættulega hátt – það er pólitísk ákvörðun, tekin af persónum af holdi og blóði. Munum það.