Hugleiðingar frá helvíti

Ég hef aldrei komið á annan eins stað. Ef helvíti er til, þá er ég stödd í úthverfi þess. Hér í Idomeni, við landamæri Makedóníu og Grikklands, ríkir ömurðin ein. Alls staðar er fólk í neyð. Allir eru skítugir, svangir og aðstaðan hræðileg. Síðustu daga hefur hann haldist þurr og drullusvaðið því að mestu leyti þornað, en allt er skítugt. Kinnar barnanna eru þaktar moldarlagi. Pínulitlu kúlutjöldin sem heilu fjölskyldurnar hýrast í eru þakin ryki og drullu. Megn brunalykt er í loftinu og reykurinn veldur óþægindum í öndunarfærum. En hún heldur þó hland- og skítalyktinni í lágmarki. Starfsmaður Lækna án landamæra segir mér að sjúkdómar séu þegar farnir að breiðast út – allt sjúkdómar sem má rekja til skorts á hreinlætisaðstöðu. Sýkingar í augum og húð og magaveiki. Ég hef séð húsdýr halda til á hreinlegri stöðum en þessum. Þvílík eymd.


Ung kona frá Írak segir þýskum sjálfboðaliða að í dag hafi hún baðað sig í fyrsta skipti í þrjár vikur. Hér eru örfá klósett, ennþá færri sturtur og ekkert heitt vatn. Á svæðinu eru samatals um þrettán þúsund manns. Ég strauk yfir kollinn á litlum sýrlenskum snáða, hárið á honum var svo skítugt að það haggaðist varla. Mörg börn eru krúnurökuð og það er engin tilviljun. Hafandi tekið á móti þúsundum flóttamanna þegar þau komu á lekum gúmmíbátum yfir til Grikklans taldi ég mig hafa séð ýmislegt. En þetta er það allra versta. Hér er allt annað andrúmsloft því á Lesbos var þó von. Hér er ekki von, hér er bara þreyta, hungur, drulla og ömurleiki. Kona sem unnið hefur hjálparstarf um allan heim segir erfiðara að horfa upp á þetta en það sem hún upplifði í Suður-Súdan og Kongó. Þar var ástandið verra en áskoranirnar fólust í að sigrast á skorti og takmarkanir hjálparstarfsins fólust í fátækt. Í allsgnægtum Evrópu ríkir þessi neyð að óþörfu, ekki vegna skorts á fjármagni eða mannskap, heldur vegna skort á vilja. Slíku er erfitt að kyngja. Ég hitti sýrlenskan fyrrum starfsmann Lækna án landamæra í Kúrdistan. Hann vann í birgðastöð samtakanna í Írak í mörg ár, auk þess sem pabbi hans var kokkur fyrir samtökin. Hann hefur byggt upp margar flóttamannabúðir. Nú er hann sjálfur flóttamaður, hýrist með konu sína og ungbarn í óboðlegum búðum og veit betur en flestir hvaða hættur steðja að. Hann er áhyggjufullur. Hann hefur tekið að sér að fræða samferðafólk sitt um helstu hættur svona staða, hvað ber að varast og hvernig er best að forðast sjúkdóma. Hann hefur í nógu að snúast, hjálpar fyrrum kollegum sínum að túlka og sendist út og suður. „Ég er heppinn. Ég hef hlutverk“, segir hann. ,,Ég veit að konan mín segir ykkur að hún hafi það fínt, en það er ekki satt. Enginn hefur það fínt hérna. Við erum öll að reyna að halda andliti, en hér líður öllum illa.“ Sýrlensk fjölskylda hefur hafst við í búðunum í mánuð. Þau fóru sennilega í gegnum Moria búðirnar á Lesbos þegar ég var þar ennþá. Mér finnst vera eilífð síðan og get ekki ímyndað mér hvernig tíminn hefur silast áfram hér í þessum forarpytti fjandseminnar. Sparnaður þeirra er á þrotum og þau hafa aðeins hjálparsamtök að reiða sig á. Þau eru svöng. Fjölskyldufaðirinn sýnir mér hvernig miðdóttirin er að horast niður. Hún hefur verið veik og fæst ekki lengur til að borða kássuna sem boðið er upp á. Hér er borinn fram matur á óreglulegum tímum, stundum þarf að standa marga klukkutíma í röð. Margir hafa brugðið á það ráð að elda sjálfir yfir opnum eldi. En fjölskyldan á ekki lengur peninga til að kaupa mat. Við sitjum í tjaldinu þeirra og spjöllum. Ég hef aldrei komið inn í húskaynni sýrlenskrar fjölskyldu áður án þess að vera boðið upp á eitthvað. Alveg sama hversu lítið er til, þá krefst fólk þess alltaf að maður fái sér í það minnsta te eða vatnsglas. Arabísk gestrisni er heimsþekkt. Þarna er ekkert til. Við erum vel haldið forréttindafólk sem ekkert þarf, en það er niðurlægjandi að fá gesti og geta ekkert boðið. Konurnar reyna undir rós að spyrja hvort ég geti aðstoðað þær, niðurlútar og vandræðalegar. Arabískan mín er ekki nógu góð til að skilja orð sem sögð eru undir rós, svo ég játa fyrir þeim að ég skilji ekki. „Help us!“ „can you help us?“ segir önnur þeirra með örvæntingartón í röddinni. Þegar sýrlenskt millistéttafólk biður ókunnuga konu um peninga er ekki fokið í flest skjól heldur öll.

Þess vegna er þetta öðruvísi en Lesbos. Þar var fólk búið að ná landi í Evrópu og taldi sig hólpið. Áfanga var náð. Það lifði af og var fullt af von og sannfært um að það myndi spjara sig. Aðstaðan á Lesbos var slæm og neyðin oft mikil, en ég hélt mér alltaf gangandi með því að minna mig á að þetta væri tímabundið ástand. Dvölin á Lesbos var yfirleitt ekki lengri en tveir til fjórir dagar. Fólk hafði ennþá orku, reisn og von og var á leiðinni lengra. Við vissum öll að leiðin yrði löng og erfið, en leiðin lá í átt að öryggi og það var það sem skipti máli. Idomeni er endastöð. Líknardeild mennskunnar. Hér átta örmagna fjölskyldur sig á að verndin, sem samkvæmt lögum er réttur allra, er ekkert nema orðin tóm. Þeir sem ég hef rætt við eru á einu máli um að búðirnar verði ekki rýmdar með valdi. Á meðan nokkuð friðsamlegt ástand ríki fái þær að standa. Aðrir segja að þetta sé bara tímaspursmál. Eftir að hafa horft á eftir sjö hertrukkum með samtals fjórtán skriðdreka á pallinum keyra í átt að landamærunum um hádegisbil í dag er ég nokkuð viss um að ekki er von á góðu. Samkvæmt ESB samningnum á að rýma svona staði. Óvissan er svo mikil að ekki einu sinni hjálparsamtök treysta sér til að taka ákvarðanir. Hér er ekkert byggt, því enginn veit hvað gerist á morgun. Samningurinn er of gallaður til að taka gildi strax og það sem þarf til að virkja hann eru of gróf brot á mannréttindum til að hægt sé að hefjast handa. En mér heyrist á öllu að þetta sé spurning um daga. Pattstaða. Gróusögur af opnum landamærum breiðast út. Daglega eru hópar sem gera sig klára til að leggja í hann, fullviss um að landamærin opni í dag. Smyglarar eru mættir á svæðið og lofa fólki flutningi til draumalandsins fyrir rétta upphæð. Það hefur dregið úr sölu á ferðum yfir sundið eftir samning Evrópu og Tyrklands og það þarf enginn að segja mér að í Tyrklandi sitji atvinnulausir smyglarar og hrottar með hendur í skauti sér. Þar sem er neyð, þar er hægt að græða. Og fólk lætur í vonleysi sínu glepjast, þrátt fyrir aðvaranir sjálfboðaliða og hjálparstarfsfólks. Yfirvöld bjóða fólki að yfirgefa Idomeni sjálfviljugt, svona eins og það hafi val. Rútur standa tilbúnar til að flytja það annað. Fari það er því komið fyrir í lokuðum búðum. Varðhaldsmiðstöðvum sem herinn gætir og sjálfboðliðar hafa engan aðgang að. Annað hvort deyr fólk í Idomeni eða tapar frelsinu. Vissulega er hætt við að sjúkdómafaraldur breiðist út. En ástæðan fyrir því að fólk neitar að fara er að ef, bara ef, einhver smuga gefst til að komst yfir landamærin, þá vill það síst af öllu vera í haldi gríska hersins einhvers staðar í óbyggðum.

Sækjum þau

Það er mikilvægt að sögur af aðstæðum flóttafólks þagni ekki þó svo að Evrópa hafi misst áhugann. Þvert á móti er það mikilvægara en nokkru sinni að reyna að koma fólki sem situr heima í örygginu í skilning um hvað er að gerast steinsnar frá. En það er ekki nóg að gráta og deila. Það er ekki nóg að senda föt og mat. Það er ekki nóg að viðhalda ríkjandi ástandi, sem fer versnandi. Nú er komið nóg. Ég verð að biðja ykkur að rísa upp á afturfótunum, öll sem eitt, og krefjast þess að við gerum betur. Hér er fólk að deyja á okkar vakt. Eitthvað land þarf að taka af skarið og vera fyrst til að sækja fólk hingað áður en það deyr. Ég skora á íslensk stjórnvöld að senda fyrstu þotuna sem flytur fólk í örugga höfn. Það er okkur ekki í hag að fólk deyi hérna. Slíkt er óverjandi. Evrópusambandið virðist vera að kenna flóttafólki lexíu. Ekki koma, þá deyrðu. Ekki koma, þá veslastu upp við landamærin. Ekki koma, það er tilgangslaust. Ekki koma, því enginn mun hjálpa þér. Dæmi eru um að fólk sem óski þess að það hefði dáið í sprengingu heima frekar en að hýrast eins og meindýr í drullupytti í Evrópu. En trúið mér. Fólk heldur áfram að koma. Í Evrópu er ekki stríð, og á meðan stríðsástand ríkir annars staðar mun fólk koma. „Ég þarf ekkert nema örlítin flöt til að vera á og frið. Ekkert annað“, sagði íraskur fjölskyldufaðir. „Það halda allir að við séum á höttunum eftir einhverju. Ég þarf bara nokkra skitna fermetra og frið“. Hér er pláss og hér er fiður. Hleypum þeim inn í hlýjuna. Ef við sækjum fyrsta hópinn erum við ekki bara að bjarga mannslífum, við erum að fordæma það stórkostlega mannréttindabrot sem ESB/Tyrklands samningurinn er. Við getum líka verið þau sem leyfa stórum herrum að útrýma fólki í þögn. Idomeni eru nefnilega útrýmingabúðir. Þær útrýma von, þær útrýma trú á mennskuna og áður en varir fara þær að útrýma fólki. Yfir tíu þúsund Íslendingar buðu fram aðstoð sína í fyrrahaust. Ég reikna með að það boð standi enn. Að halda því fram að eitt ríkasta land í heimi hafi ekki efni á að hjálpa fólki úr svona aðstæðum er ein stærsta lygi samtímans og gerir okkur bullandi meðsek í öllu því sem gengur á í Evrópu þessa dagana. Stærsta ógn þessa fólks er tiltölulega nýfædd stjórnvaldsákvörðun sem enginn virðist þora að mótmæla. Sækjum þau strax og sækjum svo fleiri ef þarf. Það er það minnsta sem við getum gert.