Þórunn Ólafssdóttir Reykjavík

Á okkar vakt

Þykkt lag af táragasi liggur yfir svæðinu. Skothvellir heyrast úr fjarska, hljóðsprengjur springa með gífuregum látum og kúlum rignir yfir búðirnar. Börn sem fullorðnir öskra af sársauka og örvæntingu. Fólk hnígur niður meðvitundarlaust, sumir eru særðir eftir að hafa fengið í sig kúlu eða táragashylki, aðrir eftir að hafa andað að sér of stórum skammti af táragasi. Fólk ryðst í gegnum búðirnar í leit að súrefni, fullorðnir, börn og tjöld verða undir flóðbylgju fólks sem á fótum sínum fjör að launa. Tjöld sem í eru meðal annars nýfædd börn fyllast af gasi. Verða að litlum gasklefum. Ungbörn missa meðvitund, fólk hóstar, ælir og hnígur niður. Þyrlur sveima yfir svæðinu og herinn heldur áfram að skjóta. Heilbrigðisstarfsfólk hefur ekki undan og almennir sjálfboðaliðar og flóttafólk sinna slösuðum. Fólk er borið á teppum í átt að eina sjúkraskýlinu sem er eftir. UNHCR, Rauði krossinn og önnur hjálparsamtök eru flúin af vettvangi. Aðeins Læknar án landamæra, aktivistar og sjálfboðaliðar eru eftir, auk grísku lögreglunnar sem stendur aðgerðalaus og fylgist með. Árásin varir í sex klukkustundir. Svona lýsir fólk ástandinu í Idomeni flóttamannabúðunumí fyrradag. Þar dvelja um ellefu þúsund manns. Fólk sem flúði til Evrópu í leit að öryggi og friði. Í leit að vernd. Að morgni sunnudagsins 10. apríl breiddist út sá orðrómur að fólki yrði hleypt yfir landamærin þennan dag. Svona orðrómur fer oft á kreik, og daglega hitti ég vongóða einstaklinga sem spyrja mig hvort orðrómur um opnun hinna og þessara landamæra standist. Oftast tekst sjálfboðaliðum og fólki í búðunum að slökkva slíka vonarneista í sameiningu. En mikið skil ég að fólk trúi hverju sem er – því sem færir því örlitla von um framtíð. Örlítinn vonarneista um að lifa af þessa óvissuferð og ómannúðlegu meðferð evrópskra stjórnvalda. Þennan dag var hinsvegar engin leið að stöðva orðróminn. Fólk pakkaði saman eigum sínum, lítil börn sátu full eftirvæntingar á upprúlluðum svefnpokunum á meðan foreldrar þeirra undirbjuggu för í átt að friði. Svo tilbúin til að yfirgefa drullupyttinn Idomeni. Það er erfitt að koma upplýsingum til ellefu þúsund manns á skömmum tíma. Hvað þá þegar töluð eru mismunandi tungumál, internetaðgangur er takmarkaður og ekki er sjónvarp eða greiður aðgangur að fjölmiðlum á svæðinu. Enn erfiðara er að stöðva það sem fólk vill heyra. Að eftir óbærilega bið – sem viðist engan endi ætla að taka – séu loksins góðar fréttir. Fólk er hrætt. Samningur ESB við Tyrkland veldur fólki gríðarlegum kvíða og ótta við að verða sent aftur til Tyrklands. Eftir að hafa setið fund með lögfræðingum UNHCR þar sem staðan var útskýrð fyrir sjálfboðaliðum er því gott að geta fært fólki örlítinn vonarneista með því að segja því að enginn sem kom áður en samningurinn tók gildi verði sendur til Tyrklands, ef viðkomandi hefur í hyggju að sækja um hæli.

Vinsamlegast reynið aftur síðar

Eins og staðan er núna hefur fólk aðeins þann möguleika að sækja um hæli í Grikklandi. Grikkland metur svo hvort umsækjandinn verði sendur áfram til einhvers af þeim Evrópulöndum sem hafa skuldbundið sig til að taka við fólki frá Grikklandi. Niðurstaða slíks mats ræðst yfirleitt af tengslum við ákveðið land. Ef fólk á maka eða börn undir lögaldri í öðru Evrópulandi og sækir um fjölskyldusameiningu er umsókn þess tekin til meðferðar í viðkomandi landi. Þá geta Evrópuríkin sjálf haft heimikið að segja, t.d. geta stjórnvöld vel ákveðið að sækja hóp fólks og veita vernd. Aðrar ástæður varða oft viðkvæmustu hópa flóttafólks, svo sem fylgdarlaus börn, fólk sem stríðir við veikindi og önnur sérstök tilfelli. Þetta hljómar alls ekki svo illa á blaði. En raunveruleikinn er því miður öllu grimmari. Eina leiðin fyrir flóttafólk til að sækja um hæli er að hafa samband við gríska stofnun sem sér um meðferð hælisumsókna. Eina leiðin til að hafa samband við stofnunina er að hringja í gegnum Skype. Og haldið ykkur nú fast – sú þjónusta er í boði í klukkutíma á dag, alla virka daga! Enginn sem ég hef hitt í Idomeni hefur náð í gegn á Skype. Orsökin er auðvitað fyrst og fremst gríðarlegt álag á kerfið, en í flestum flóttamannabúðum ræður sameiginleg nettenging ekki við Skype forritið – og þá er einungis átt við þá sem hafa aðgang að tölvu eða snjallsíma til að tengjast netinu. Fullt af fólki hefur engan möguleika á að komast í netsamband. Samkvæmt lögfræðingi frá UNHCR getur gríska hælisleitendakerfið skáð um hundrað hælisumsóknir á dag. Þá eru eftir viðtöl og allt það stranga ferli sem hælisveiting felur í sér. Í Grikklandi eru yfir fimmtíuþúsund einstaklingar sem eiga rétt á að sækja um hæli. Þangað til Evrópa tekur af skarið og aðstoðar Grikki við þetta risavaxna verkefni sem landið ræður engan veginn við, neyðist fólk til að búa við óbærileg skilyrði í flóttamannabúðum víðsvegar um landið. Mikið af fólkinu í Idomeni á fjölskyldur annars staðar í Evrópu og stór hluti eru mæður með börn. Algengt var að fjölskyldufeður færu á undan til Evrópu, bæði af fjárhagslegum ástæðum, en einnig til að þurfa ekki að setja fjölskylduna um borð í lífshættulegan gúmmíbát. Hinn mikli straumur karlmanna sem svo oft er talað um voru oft og tíðum fjölskyldufeður á leið til Evrópu til að sækja um hæli og í kjölfarið fjölskyldusameiningu. En eftir að Evrópulönd fóru í hrönnum að setja lög sem tefja fjölskyldusameiningu greip örvæntingin um sig og konur og börn streymdu til Grikklands á lekum gúmmíbátum.

Raunveruleiki tugþúsunda flóttamanna í Evrópu.

Þetta er raunveruleiki fjölmarga flóttamanna í Evrópu. Líka fólksins sem fór með allt sitt hafurtask að landamærum Makedóníu, aðeins til þess að komast að því að ekkert var til í orðrómnum. Landamærin voru jafn kyrfilega lokuð og áður. Eftir að hafa reynt að tala landamæralögregluna til brutust út mótmæli. Menn klipptu á víra og lítill hópur komst í gegnum girðinguna. Þá hófst atburðaráðin sem lýst er hér að ofan. Flest fjölskyldufólk dró sig til baka þegar gasinu fór að rigna, en ungir menn héldu áfram að mótmæla og nokkrir köstuðu steinum að hernum í mótmælaskyni. Í fyrstu rigndi gasinu aðeins við landamærin, en ekki leið á löngu þar til gashylki fóru að springa inni í búðunum, um hálfum kílómeter ífrá landamærunum. Inni á grísku landssvæði. Þar sem ungbörn lágu og sváfu. Áhyggjur margra Evrópubúa beinast að því að við getum ekki aðstoðað fólk nógu vel og nógu fljótt. Að við eigum ekki nóg af fagfólki og að við eigum ekki nóg að gefa. Svo á meðan flóttafólk bíður þess að við hugsum málið, sefur það í drullupolli, andar að sér eitruðum reyk sem leggur frá plastinu sem það brennir til að halda á sér hita, líður næringarskort, veikist vegna óhreinlætis og nú síðast – vaknar upp við þá martröð að í Evrópu eru þau líka skotmörk. „Í gær var þetta eins og í Sýrlandi“, sagði ungur maður í búðunum við mig daginn eftir árásina. Á fjórða tug þurftu áfallahjálp og mögulega er tala þeirra sem hefðu þurft á slíkri aðstoð að halda en fengu ekki mun hærri. Á fjórða hundrað þurftu læknisaðstoð, þar af börn sem hlutu höfuðmeiðsli vegna gúmmíkúlna sem herinn skaut þau með. Og hvert er svar Evrópuríkja við þessum ofsafengnu viðbrögðum makedónsku lögreglunnar? Þögn. Það er lágmark að Evrópa láti í sér heyra og fordæmi harkalega árásirnar. Nei, annars. Lágmarkið er að brjóta meðvirknina með samningum ESB við Tyrkland og taka á móti flóttafólki frá Grikklandi. Einkunnarorð alls hjálparstarfs eru „do no harm“. Ekki gera neitt, sem gerir ástandið verra. Fyrst að Evrópa telur sig ekki geta veitt flóttamönnum betri aðstæður en forarpyttinn Idomeni, þá væri það minnsta sem hún gæti gert að láta það eiga sig að slasa fólk á líkama og sál. Með því að beita vopnum gegn fórnarlömbum stríðs er verið að ráðast á fólk á neyðarmóttöku fyrir þolendur ofbeldis. Það er viðbjóðslegt, ólöglegt og óverjandi. Ofbeldi í sinni ljótustu mynd. Og það viðgengst á okkar vakt.

---

Grein birtist fyrst á kjarninn.is (http://kjarninn.is/sleggjan/2016-05-03-saekjum-thau/?utm_content=buffer1a3a5&utm_medium=social&utm_source=facebook.com&utm_campaign=buffer)