Akkeri Idomenni

Þórunn hlýtur Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar - Yfirlýsing

Þórunn Ólafsdóttir, formaður Akkeris, hlaut í dag Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir ötult starf sitt í þágu flóttamanna. Þórunn hefur frá því í ágúst á síðasta ári aðstoðað flóttamenn, bæði á eyjunni Lesbos og í Idomeni í Grikklandi.


 Um leið og við óskum Þórunni til hamingju með verðlaunin viljum við þakka öllum þeim sem hafa stutt Akkeri. Framlag ykkar gerir okkur kleift að styðja við þau fjölmörgu mikilvægu verkefni sem gera veruna í búðunum vonandi örlítið bærilegri.

Hér er yfirlýsing frá Þórunni sem lesin var upp í athöfninni fyrr í dag:Fátt veldur mér meiri áhyggjum en að búa í heimi þar sem það þykir hetjudáð að hjálpa öðrum. Með því að standa vörð um mannréttindi annarra stöndum við líka vörð um okkar eigin. Mannréttindi eru nefnilega ekki náttúrulögmál eða sjálfsagður réttur sem fylgt hefur mannkyninu frá örófi alda. Mannréttindi eru pólitísk ákvörðun. Réttindi sem formæður okkar og feður þurftu að berjast fyrir og geta verið tekin af okkur, brotin og hunsuð á margvíslegan hátt - af stjórnvöldum, atvinnurekendum eða samborgurum. Mannréttindi eru ekki annað en blek á blaði ef við verndum þau ekki með orðum okkar og gjörðum. Og þar gegnum við lykilhlutverki, öll sem eitt. Að gera ekkert þegar mannréttindi annarra eru brotin gerir okkur samsek. Það eykur líka hættuna á að á okkur verði brotið. Hver á að koma til bjargar ef okkar veröld hrynur einn daginn? Mannréttindi okkar allra eru í hættu ef við erum ekki á vaktinni. Þau koma okkur við. Það er engin hetjudáð að standa vörð um þau og það er ekki á færi fárra eða sérstakra aðila. Það er hlutverk okkar allra. Sum okkar geta farið út í heim og reynt að verða að liði á hamfarasvæðum. Aðrir eiga ekki heimangengt, en það eru óteljandi leiðir færar til að standa í mannréttindabaráttu. Öll getum við opnað hjörtun og sýnt hvert öðru skilning og kærleika. Látið vita að okkur stendur ekki á sama og látið í okkur heyra þegar níðst er á fólki - með orðum eða gjörðum. Og öll getum við gætt að því hvað við kaupum, hvers við neytum, hvað við segjum og hvernig við kjósum. Ástandið sem skapast hefur hér í Grikklandi er mannanna verk. Röð pólitískra ákvarðanna sem hefur svipt stóran hóp fólks grundvallarmannréttindum. Það er með mikilli auðmýkt og þakklæti sem ég tek við þessum verðlaunum. Þau eru mér mikil hvatning til að halda áfram að vinna að því markmiði að gera heiminn að svolítið bærilegri stað. Stundum kann það að virðast vonlaust í stóra samhenginu, en munum þá að við erum agnirnar sem mynda stóra samhengið. Við ERUM stóra samhengið. Takk fyrir mig.

- Þórunn Ólafssdóttir


+