Benjamin Julian Kios

Flutt eins og skepnur

Á grísku eyjunni Kíos búa um fimmtíu þúsund manns. Flóttamenn hafa streymt yfir eyjuna í hundruðþúsundatali síðasta ár, evrópskum yfirvöldum til mikillar armæðu. Í marslok var samið við Tyrkland um að endursenda alla sem kæmu þaðan. Hugmyndin var að setja alla í fangelsi við komu og gefa þeim fljótfærnislega höfnun á hælisumsókn. Fangabúðirnar á Kíos, sem gátu hýst um þúsund manns, fylltust strax. Evrópskum stjórnvöldum lá svo mikið á að stoppa komu flóttamanna að ekki gafst svigrúm til að finna starfsfólk, hanna verkferla eða koma aðföngum á staðinn. Lögreglumenn í búðunum vissu ekkert hvað þeir áttu að gera við hælisumsóknir. Sjálfboðaliðarnir sem höfðu eldað mat dag eftir dag allan veturinn voru læstir úti og þurftu að gefa matinn gegnum gat á girðingunni. Fangarnir voru sem þrumu lostnir. Allar vonir þeirra voru kæfðar. Þeim leið eins og skepnum í búri. Slagsmál, sem aldrei höfðu verið vandamál, urðu nú daglegt brauð.


Eftir mánuð af þessu ástandi voru hlið fangelsisins opnuð. Tuttugu og fimm daga gæsluvarðhaldsfresturinn var útrunninn (og nokkrir dagar til). Fólk hafði þó í engin önnur hús að venda, svo það bjó áfram í sömu stíunni, í þeirri von að heimili þeirra yrði ekki læst aftur. En svo fór lögreglan að koma inn í búðirnar fyrirvaralaust og segja fólki að koma með sér. Koma með hvert? spurðu flóttamennirnir, sem allir óttuðust brottvísun. Koma með á aðra eyju, var svarið.

Þessi “önnur eyja” var ýmist Leros eða Kos, tvær eyjur þar sem borgarstjórarnir hafa hvatt til mótmæla gegn flóttamönnum. Þótt ofbeldisfull fasísk mótmæli gegn flóttamönnum hafi átt sér stað á Kíos líka, með þögulli blessun yfirvalda, var samfélagið þar ekki jafn harkalegt í andstöðu sinni. Flestir flóttamenn ákváðu að fara ekki. En þá kom í ljós að lögreglan var ekki að spyrja, heldur skipa.


Við hlupum út í skóg og földum okkur í trjánum


Í síðustu viku var fólki hótað að það myndi sofa úti ef það kæmi ekki með til Kos. Fangabúðirnar þar væru spánnýjar - byggingin hafði tafist vegna fasískra mótmæla - og þar væri fullt af plássi. Og svo slökkti lögreglan á vatninu, svo ekki einusinni kalt vatn rann úr sturtunni, til að hvetja fólk til að koma með. (Heita vatnið hafði aldrei komist á og drykkjarvatni var naumt skammtað í plastflöskum.) “Við hlupum út í skóg og földum okkur í trjánum,” sagði fjórtán ára stelpa frá Sýrlandi mér í skilaboðum. Aðrir náðu ekki að hlaupa burt.

Fólk fór nauðugt viljugt, meðal annars fjölskyldumóðir frá Írak sem sendir mér reglulega myndbönd, myndir og skilaboð þaðan. Stundum hringir hún og grátbiður um hjálp til að komast út. Búðirnar eru lokaðar og læstar. Gæsluvarðhaldsfresturinn er hundsaður. Rauða krossinum er ekki hleypt inn og fólk má ekki fara út að kaupa sér að borða, drekka eða reykja. Þau þurfa að sætta sig við matinn sem fólkið í Kíos er mikið til hætt að borða, því hann er svo vondur, einhæfur og illa geymdur. Brauðhorn í morgunmatinn, pasta á kvöldin, á hverjum degi í vikur og mánuði. “Þetta er barnaskammtur,” sagði mér fangi í Samos, eyju nærri Kíos, þegar hann sýndi mér plastpakkaðann kvöldmatinn sinn. Einsog það væri ekki nóg finna þau stundum maðka í matnum.

Frá Kíos


Í þeim aðstæðum sem Evrópa skapar flóttamönnum í Grikklandi spretta sömu frasarnir upp aftur og aftur, allt frá fangelsum í Kíos til opinna búða á meginlandinu: Við erum einsog skepnur hérna. Af hverju höfum við ekki mannréttindi? Við viljum ekki brauð og súpu, við viljum fá að komast héðan burt.

Þegar fólk er læst inni fyrir að ferðast, fóðrað í röðum, teymt milli staða einsog skynlaus dýr, látið bíða mánuðum saman eftir bilaðri hælismeðferð sem er hönnuð til að hafna þeim, þá er lítil innistæða eftir fyrir sjálfshól Evrópubúa um mannréttindi og jöfnuð. Réttindi verða ekki til með orðunum einum - en þau eru eyðilögð þegar þau eru látin grotna niður andófslaust.