Akkeri hefur undirskriftasöfnun: Ísland verður að sækja flóttafólk


Neyð ríkir í flóttamannabúðum víða um Grikkland þar sem þúsundir manna hýrast við óboðleg skilyrði. Í fyrradag hóf gríska óeirðalögreglan að rýma Idomeni búðirnar, stærstu flóttamannabúðir Evrópu, sem urðu til eftir að Evrópuþjóðir lokuðu landamærum sínum fyrir flóttafólki. 


Samtökin Akkeri, sem Þórunn Ólafsdóttir er í forsvari fyrir, hafa sett af stað undirskriftasöfnun þar sem þau biðla til íslenskra stjórnvalda að bregðast við þeim hræðilegu aðstæðum sem Evrópuríki hafa lokað augunum fyrir. Samtökin fara fram á að brugðist verði við þessari neyð með því að bjóða hópi fólks tafarlaust hæli á Íslandi. Samtökin horfa þá einkum til viðkvæmustu hópanna, en þar má nefna fjölskyldur með lítil börn og fylgdarlaus börn og ungmenni. 

Fara á undirskriftalista

,,Við í Akkeri höfum fundið sterkt fyrir þeirri miklu samkennd sem Íslendingar hafa með fólki á flótta og miklum vilja til að tryggja öryggi þeirra og velferð. Nú biðjum við fólk um að sýna þá samkennd í verki með því að skora á stjórnvöld að bregðast fljótt við þeirri neyð sem hér ríkir og bjóða hópi fólks hæli. Allir sem dvelja í Idomeni búðunum eiga skýlausan rétt á að sækja um alþjóðlega vernd. Mannréttindi þeirra eru brotin á degi hverjum, meðal annars vegna þess að Grikkir ráða ekki við það ástand sem Evrópa hefur skilið þá eina eftir með. Sú staða kemur að endingu niður á þeim sem síst skyldi - fólki sem flúði stríðsátök í leit að öryggi. Grikkir þurfa aðstoð til að leysa vandannn og flóttafólk þarf á því að halda að önnur ríki sýni hugrekki og rjúfi þá samstöðu sem virðist ríkja meðal Evrópuþjóða um að gera ekkert,” segir Þórunn Ólafsdóttir, formaður Akkeris, sem sjálf er stödd í Grikklandi. Akkeri hvetur fólk einnig til að leggja baráttunni lið með því að nota #sækjumþau á samfélagsmiðlum. 

Sýnum hugrekki, grípum til aðgerða og #sækjumþau! 
Nánari upplýsingar:

Þegar búðirnar í Idomeni voru rýmdar höfðust þar við um 8000 manns, þar af á fjórða þúsund börn. Mörg þeirra eru ekki í fylgd með fullorðnum. Þrátt fyrir að vopnum hafi ekki verið beitt við rýminguna verður það að teljast ofbeldisfull aðgerð að þvinga fólk sem flýr stríðsátök á brott með ógnandi tilburðum og vopnavaldi. Fólk var ferjað á brott í rútum án þess að vita hver næsti áfangastaður yrði eða hvaða aðstæður tækju við. Fjölmargir hafa verið fluttir í flóttamannabúðir sem starfræktar eru af gríska hernum en algengt er að sjálfboðaliðum og mannúðarsamtökum sé meinaður aðgangur að þeim. Þá hefur fjöldi fólks verið fluttir í yfirgefnar verksmiðjur þar sem flóttamannabúðir eru flestar yfirfullar. Þessir staðir njóta ekki allir samþykkis Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna vegna skorts á hreinlæti og öðrum öryggisviðmiðum. 


Akkeri fagnar fréttum þess efnis að ríkisstjórn Íslands hafi ákveðið að taka við hópi flóttamanna sem staddir eru í Líbanon síðar á árinu, en gera þarf betur. Samtökin biðla til íslenskra stjórnvalda að bregðast strax við þeirri neyð sem nú ríkir og setja öðrum þjóðum fordæmi með því að bjóða viðkvæmum hópum sem fastir eru í Grikklandi hæli á Íslandi tafarlaust. Þar geta Íslendingar bjargað mannslífum og sett fordæmi fyrir aðrar Evrópuþjóðir um að gera slíkt hið sama. 


Evrópuþjóðir hafa reynt að takmarka möguleika fólks á að flýja til Evrópu með skelfilegum afleiðingum. Dæmi um slíka aðgerð er Tyrklandssamningurinn svokallaði, sem gengur út á að senda fólk frá Grikklandi aftur til Tyrklands. Evrópuþingið þurfti að bæta Tyrklandi sérstaklega á lista yfir örugg lönd fyrir flóttafólk til að þetta mætti verða. Mannréttindasamtök hafa ítrekað gagnrýnt samninginn harðlega fyrir að brjóta gegn alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Fjölskipaður dómstóll í Grikklandi staðfesti þessa gagnrýni í vikunni þegar hann komast að þeirri niðurstöðu að Tyrkland væri ekki öruggur staður fyrir sýrlenska flóttamenn og því bæri ekki að senda þá aftur þangað. Þórunn Ólafsdóttir hefur unnið ötullega að réttindum flóttafólks og hlaut nýverið Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar og var nýverið tilnefnd sem ein af tíu framúrskarandi ungum Íslendingum fyrir framlag sitt til mannúðarstarfs. Til að geta aðstoðað flóttafólk sem best stofnaði Þórunn, ásamt hópi fólks, samtökin Akkeri síðastliðið haust. Samtökin samanstanda af fólki sem vill leggja sitt af mörkum til að leysa vandann og er Þórunn formaður þeirra. Meginmarkmið Akkeris er að tryggja mannúðlega meðferð á flóttafólki, meðal annars með því að styðja við góð verkefni innan flóttamannabúða í Grikklandi en einnig með því að þrýsta á íslensk stjórnvöld að leggja meira af mörkum til að leysa vandann.