Nýtt líf eftir að hafa fengið gervifót

Frá því í febrúar hefur Akkeri unnið með erlendum sjálfboðaliðum að því að útvega Osama, 14 ára flóttamanni frá Sýrlandi, gervifót.

Osama misst bæði foreldra sína, systur og vinstri fótlegginn í sprengingu í heimalandi sínu og flúði í kjölfarið með eftirlifandi systkinum sínum til Líbanon.

Gervifætur eru dýrir svo þegar sjálfboðaliðar í Líbanon komust í samband við fjölskylduna hófu þeir söfnun fyrir fætinum svo Osama gæti lifað sem eðlilegustu lífi.

Þórunn Ólafsdóttir komst á snoðir um söfnunina og eftir að hafa rætt við aðila hér á landi sem ekki vilja láta nafn síns getið varð úr að sjálfboðaliðarnir sendu mál af Osama til Íslands. Í kjölfarið voru meginhlutar fótarins sniðnir hér á landi og svo sendir til Líbanon.

Áður en Osama gat fengið fótinn þurfti að sérsníða hulsu í Líbanon og sökum hægagangs í heilbrigðiskerfinu hefur það ferli tekið marga mánuði. Í dag gekk Osama svo loksins heim á nýja fætinum.

Við erum stolt og þakklát þeim sem komu að því að aðstoða Osama við að öðlast betra líf. Eins viljum við þakka öllum þeim sem styðja við starf Akkeris.

Dagurinn í dag er góður og með ykkar hjálp getum við búið til fleiri góða daga fyrir fólk á flótta, einstaklinga sem og hópa.